Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um staðhæfingar sem finna má í skýrslu samtakanna Transport & Environment sem nýlega kom út vilja Cruise Iceland taka eftirfarandi fram.

Cruise Line Industry Association (CLIA) og skemmtiferðaskipageirinn hafa um langt skeið unnið að því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar. CLIA eiga í samtali við áfangastaði um samvinnu með það fyrir augum að starfa á þeim í sem mestri sátt.

Það er að sjálfsögðu rétt að skemmtiferðaskipageirinn, eins og aðrir geirar atvinnulífsins, ætti að miða að því að losa sem allra minnst af gróðurhúsalofttegundum. Skemmtiferðaskipin eru samt sem áður hluti af framtíð “bláa hagkerfisins” hvað ferðaþjónustu varðar með fjárfestingu sinni í vistvænni orku, og núll losun koldíoxíðs fyrir 2050. Tekin hafa verið fjölmörg skref til að draga úr umhverfisáhrifum í skemmtiferðaskipageiranum. Eftir fimm ár verður 75% skemmtiferðaskipanna með möguleika á tengingu við rafmagn í höfnum, vel innan þess tímaramma sem ESB hefur sett. Stefnt er að landtengingum stærri skipa inna þriggja ára á Íslandi og landtenging smærri skipa er nú þegar í notkun í Hafnarfirði og verður komin gagnið síðsumars í Reykjavík. Það má því segja að landtengingar séu loka hnykkurinn varðandi loftgæði í höfnum og sú framtíðarsýn sem við sjáum á Íslandi sérstaklega. Rafhlöður í skipum munu svo gera þeim kleift að sigla inn og út úr höfn á hleðslu úr landi. Þetta mun raungerast, enda hafa 65 milljarðar Evra hafa verið settir í fjárfestingu á nýjum og umhverfisvænni skipum í geiranum.

Hvað er gert nú þegar til að draga úr mengun?
Öll skip í Evrópu eru útbúin hreinsibúnaði sem fjarlægir hátt í 98% af brennisteini úr útblæstri eða þá að notast er við annað eldsneyti sem útilokar þessa gerð útblásturs. Þetta er í fullu samræmi við IMO 2020 Global Sulphur Cap, strangari SECA takmörk og EU Sulphur Directive (EU) 2016/802 sem saman skilaði 70% samdrætti í brennisteinsdíoxíðslosun í skipageiranum. Það er rétt að gerðar eru minni kröfur varðandi brennisteins innihald í skipaeldsneyti en gagnvart ökutækjum, enda sigla skip á milli landa á rúmsjó á meðan ökutæki eru notuð í byggð. Að auki eru í höfn notaðar dísilknúnar rafstöðvar. Mismunandi kröfur til samgöngutækjanna ættu því ekki að koma á óvart.

Skemmtiferðaskipageirinn leiðir einnig þróun í umhverfisvænna eldsneyti, m.a. með fljótandi jarðgasi eða lífeldsneyti en þar hefur einnig verið tekið á svokölluðum metan leka sem er ekki lengur umtalsvert vandamál, en reiknað er með að vandamálið verði alveg úr sögunni fyrir 2030.

Skemmtiferðaskip þurfa samkvæmt lögum og reglum að uppfylla alþjóðlegar kröfur, yfirþjóðlegar kröfur (t.d. frá ESB) og kröfur hvers lands og er því almennt sniðinn þröngur stakkur sem geirinn mætir vel. Eðlilegast er því að styðjast við gögn frá hinu opinbera þegar þau eru fyrir hendi. Sem dæmi má nefna misræmi í staðhæfingum Transport & Environment miðað við gögn frá ESB. Samkvæmt samtökunum er höfnin á Madeira, Funchal, sú tíunda mengaðasta í Evrópu. Samkvæmt Umhverfisstofnun Evrópusambandsins (European Environment Agency) er sama höfn hins vegar sú fjórða hreinasta, í kjölfar ítarlegra mælinga í fyrra og árið áður m.a. vegna skemmtiferðaskipa[1].

Markmiðið hlýtur alltaf og óhjákvæmilega að vera að draga eins mikið úr allri mengun eins og kostur er, geirinn er á þeirri vegferð með metnaðarfull markmið innan fárra ára. Á Íslandi er unnið í að taka upp svokallað EPI kerfi sem refsar mengandi skipum en ívilnar skipum sem standa sig vel og ljóst er að sumarið á Íslandi hefur farið vel af stað þrátt fyrir hnökra þar sem útblástur var til ama. Ætlunin er að gera enn betur á næsta ári og skiptir EPI kerfið miklu máli þar. Vonir standa til að hægt sé að innleiða EPI kerfið víðar á Íslandi, en stjórnvöld þurfa að heimila gjaldtökuna.

Samráð við áfangastaði til grænni framtíðar
Skýrsla Transport & Environment er ekki að öllu leyti sanngjörn gagnvart skemmtiferðaskipunum, sem er miður því gagnleg rýni skiptir miklu máli við val á lausnum sem draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum. Sem dæmi um það má nefna að CLIA hafði óskað eftir öðrum legustað í 10 ár og studdi aðgerðir í Feneyjum sem snérust um það að færa komuhöfn skemmtiferðaskipa frá Feneyjarlóninu og banna skemmtiferðaskip yfir ákveðinni stærð í lóninu. Megin ástæða þess að talið var nauðsynlegt að færa aðkomu skipanna var ekki vegna loftmengunar heldur vegna verndar lónsins sjálfs og ásýndar Feneyja, og var sú ákvörðun, eins og áður segir, studd af CLIA. Það er því rangt, eins og látið er að liggja í staðhæfingum Transport & Environment, að ástæðan sé loftmengun frá skipunum. Þá er enn fremur eðlilegt að loftmengun frá skipum minnki um 80% ef skip yfir ákveðinni stærð eru bönnuð á tilteknum stað. Bannið í Feneyjum stafaði því fyrst og fremst af verndunarþörf borgarinnar og Feneyjarlónsins og fagnaði skemmtiferðaskipageirinn breytingunum, eins og áður segir, enda er ólíklegt að gestir vilji koma þangað sem þeir eru óvelkomnir og því skiptir samráð við áfangastaðina miklu máli. Það má bæta við að flutningi hafnarinnar fylgir uppbygging á hafnarmannvirkjum fyrir fimm skip í Marghera sem þjónustar Feneyjar til framtíðar.

Þá er samanburður samtakanna á flutningum með skipum annars vegar og bílum hins vegar sérkennilegur og ekki gagnlegur þar sem skip eru ekki í neinni samkeppni við bíla. Allar samgöngur menga og samgöngur á sjó lúta öðrum lögmálum en samgöngur á landi. Raunar valda nánast allar athafnir mannsins einhvers konar mengun og alltaf ætti að miða að því að draga úr henni eins og mögulegt er, hvort sem það er á landi, í lofti eða á sjó. Eðlilegt er að gera strangari kröfur til eldsneytis í samgöngutækjum sem aðallega eru notuð í byggð heldur en til samgöngutækja sem þurfa að sigla yfir úthaf.

Skemmtiferðaskipin standa sig enn fremur mjög vel á ýmsum öðrum sviðum umhverfisins og eru framarlega í sjóhreinsun, vatnsframleiðslu og endurvinnslu, til að mynda, þar sem nánast allt um borð er endurunnið. Staðhæfingar samtakanna snúa enn fremur fyrst og fremst að brennisteinsmengun, en bílar eru einmitt ekki miklir áhrifavaldar hvað brennisteinsmengun varðar enda er hún fyrst og fremst tengd orkugjöfum sem notaðir eru í iðnaði og við sjóflutninga. Bæði nota bílar eldsneyti með mun lægra brennisteinsinnihaldi og hvarfakúta sem binda brennisteinsdíoxíð. Samanburður samtakanna er hliðstæður því að bera saman metanlosun frá landbúnaði við metanlosun frá bílum, en þar myndi að öllum líkindum halla verulega á búfénað enda losa bílar ekkert metan en það verður hins vegar til við framleiðslu á eldsneytinu sem bílarnir nota. Þetta er auðvitað ekki sanngjarn né gagnlegur samanburður.

Þá er gagnrýnivert að samtökin telji 12 sjómílur frá landi með í losun þeirra í höfn[2]. Stærsti hluti orkunotkunar skemmtiferðaskipa fer til að knýja þau áfram, á bilinu 30-60% af orkunni er nýtt í þeim tilgangi. Sá útblástur sem kemur frá skipi við þær aðstæður hefur lítil áhrif í byggð, en er vissulega myndandi þáttur í gróðurhúsaáhrifum. Það breytir því hins vegar ekki að þetta er m.a. skýringin á því af hverju gerðar eru ríkari kröfur til útblásturs frá ökutækjum en skipum. Staðhæfing samtakanna um að þetta sé losun skipanna í höfnum er því einfaldlega röng.

Til að setja stærð skemmtiferðaskipaflotans í samhengi má benda á að skemmtiferðaskip eru einungis um 5% af hafnarumferð stórra hafna innan ESB, enda eru um 60 þúsund skip sem eru í flutningum og viðskiptum á meðan skemmtiferðaskipin eru einungis 350.

Framtíðarsýnin í ferðaþjónustu, hvað farþegaflutninga varðar, er óhjákvæmilega samtvinnuð ferðalögum á sjó þar sem umhverfisvænni tækni er nú þegar til staðar með fljótandi náttúrugasi, rafmagni og jafnvel með hagnýtingu vindsins, sem öldum saman hefur knúið skip áfram um höf heimsins. Með þeim breytingum sem eru framundan á flota skemmtiferðaskipa er æskilegt að stutt verði við vegferð geirans að lágmörkun umhverfisáhrifa.

Fyrir umhverfisráðherra okkar sem tjáði sig í dag, 18. júlí, um áðurnefnda skýrslu bendum við á að reikningurinn fyrir þessa vegferð skemmtiferðaskipageirans er svo sannarlega ekki skilinn eftir hjá landsmönnum. Hafnirnar í kringum landið hafa umtalsverðar tekjur af skemmtiferðaskipum og í heildina er áætlað að árlega skili skemmtiferðaskipageirinn um 30 milljörðum inn í hagkerfið, mikið til á landsbyggðinni. Hagsmunir landsmanna af því að skemmtiferðaskipin eigi möguleika á tengingu í landi eru því miklir.

Að lokum má deila eftirfarandi fróðleiksmolum fyrir áhugasama um útblástur skemmtiferðaskipa svo greina megi útblástur og mismunandi orsakir hans, en við göngum hér út frá því að notað sé eldsneyti sem hefur brennisteins innihald innan við 0,1%, eins og reglur hér á landi mæla fyrir um:

Hvítur útblástur sem kemur upp úr reykháf er vatnsgufa frá þvottavélum, og frá SCR kerfum í reykháfi sem binda brennisteinsdíoxíð og önnur efni í útblæstrinum.

Gulur útblástur kemur frá NH3 (ammoníak) sem notast er við í scrubber kerfum (hreinsa útblásturinn).

Ljósblár útblástur stafar af biluðum eða lélegum spíssum í dísilvélum (venjulega ljósavélar þegar skip liggur við bryggju).

Dökkblár útblástur er smurolíubruni þ.e. sem kemur upp með stimplum – vélin orðin slitin.

Svartur útblástur stafar að ófullnægjandi loftblöndun dísilvéla þ.e. biluð túrbína eða ventlar.

[1] https://www.eea.europa.eu/themes/air/urban-air-quality/european-city-air-quality-viewer –

[2] We then aggregated emissions results in two ways: 1. Emissions “around ports” are pollutants emitted by ships within 12 nautical miles (nm) from a given port’s main coordinates and at a speed-over-ground (SOG) of less than 3 knots. 12 nm corresponds to the limit of territorial waters whereas 3 knots is the speed observed in AIS below which a ship is considered at anchor or at berth as per the Fourth IMO Greenhouse Gas (GHG) study. Stays at dry docks were naturally excluded. (bls. 8)