Sigurður Jökull Ólafsson, formaður Cruise Iceland, flutti erindi þann 17. janúar sl. á Málþingi Samtaka um söguferðaþjónustu sem var haldið í Eddu – húsi íslenskunnar. Fjölmörg áhugaverð erindi komu fram frá þeim Margréti Björk Björnsdóttur frá Áfangastaðastofu Vesturlands, Skúla Birni Gunnarssyni forstöðumanns Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, Jónu Símonu Bjarnadóttur forstöðumanns Byggðasafns Vestfjarða, Ingibjörgu Þórisdóttur sviðsstjóra miðlunar hjá Árnastofnun, Haraldi Þór Egilssyni forstöðumanns Minjasafnsins á Akureyri og loks Einari Á E. Sæmundsen þjóðgarðsverði á Þingvöllum.

Hægt er að horfa á öll erindin hér, en klippan er stillt á erindi Sigurðar Jökuls sem fjallaði m.a. um jákvæð áhrif skemmtiferðaskipanna fyrir söfnin í landinu.

Í erindi sínu reifaði Sigurður Jökull efnahagslegt mikilvægi skemmtiferðaskipa sem var áætlað 37,2 milljarðar á árinu 2023 í skýrslu Reykjavik Economics. Ferðamenn skemmtiferðaskipa eru sérstaklega mikilvægir viðskiptavinir safna en líka fjölda annarra fyrirtækja. Í spurningakönnun til farþega sem Sigurður Jökull vitnaði í kom fram að 50% farþega fór í rútuferðir út fyrir bæ, um 30% keyptu sér mat úr héraði, tæp 20% fóru á söfn og 20% í baðlón eða heilsulind. Þá eru ótaldar aðrar afþreyingar eins og útsýnisflug, göngur með leiðsögn, bílaleiga, reiðtúrar, kajak ferðir eða flúðasigling, hvalaskoðun, köfun, hjólreiðatúrar eða sund. Ljóst má vera að ferðamaðurinn getur ekki gert allt allsstaðar en virkni þeirra er hins vegar mjög mikil miðað við niðurstöður könnunarinnar.

Dæmi um að skipafarþegar séu forsenda rekstrar
Þetta sést vel ef við skoðum dæmið hinu megin frá. Í erindinu kom fram að tæp 20% færu á söfn. Tölurnar frá söfnunum eru sérlega áhugaverðar í sjö dæmum sem tekin voru.

  • Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði fékk 3600 skipafarþega sem voru 12% gesta á síðasta ár en hins vegar 26% heildartekna af gestamóttöku.
  • Þjóðminjasafn Íslands fékk á bilinu 5-7000 skipafarþega sem voru 6-7% gesta á síðasta ári og skiluðu þeir um 7-9 milljónum í tekjur.
  • Hvalasafnið á Húsavík fékk 4900 skipafarþega á síðasta ári sem voru 11-12% gesta árið 2024 og skiluðu tekjum upp á 13,6 milljónir.
  • Árbæjarsafn fékk 10.801 skipafarþega sem voru 24% gesta safnsins árið 2024.
  • Tækniminjasafnið á Seyðisfirði fékk 1240 skipafarþega sem var 68% af heildargestum 2024 og 56% af heildartekjunum.
  • Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum fékk 143 skipafarþega sem voru 3,9% gesta á síðasta ári.
  • Heillsheiðarvirkjun fékk 19.262 skipafarþega sem voru 26% gesta ársins 2024 og skiluðu þeir 28,9 milljónum króna.

Farþegarflutningar skipanna landsbyggðinni mikilvægir
Þarna var aðeins stiklað á stóru og má vera ljóst að skipafarþegarnir skipta söfnin gríðarlega miklu máli. Söfn úr alfaraleið hringvegarins hafa enn fremur mjög ríka hagsmuni af skipafarþegum sem er sönnun þess að stjórnvöld verða að horfa á skemmtiferðaskipin sem farþegaflutninga eins og gert er í nágrannalöndunum. Án skipanna eiga áfangastaðir eins og Vestmannaeyjar, Grímsey, Djúpivogur, Borgarfjörður Eystri, Patreksfjörður og fleiri staðir utan hringvegarins litla möguleika á þjónustu við flugfarþega sem nánast undantekningarlaust fljúga inn á suðvesturhorn landsins. Það er af þessum sökum sem talað hefur verið um innviðagjald starfsstjórnarinnar á farþega skemmtiferðaskipa sem landsbyggðarskatt.

Í stuttu máli eru tekjur safnanna áætlaðar tæplega 200 milljónir – en gögnin eru ekki tæmandi.

Mýta að átroðningur stafi af skipafarþegum
Sigurður Jökull tók líka dæmi af þeirri mýtu að ferðamenn af skemmtiferðaskipum valdi átroðningi á áfangastöðum. Besta dæmið er Þingvellir sem einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Á einum stærsta skipadegi Faxaflóahafna síðasta sumar komu 7160 skipafarþegar til Reykjavíkur, þann 22. júlí. Af skipunum fóru 1778 farþegar í ferð á þingvöll sem dreifðist í fimm lotur yfir daginn frá kl. 08:45 til kl. 16:45 þar sem aldrei voru fleiri farþegar en 350 manns í einu frá skipunum á þingvöllum.

Ferðamenn af skemmtiferðaskipum eru 12-15% ferðamanna á Íslandi. Þeir koma í ferðum sem eru skipulagðar með 2-3 ára fyrirvara, búið að greiða fyrir rútuferðina, veitingastað á leiðinni og mögulega afþreyingu eins og safn eða annað. Hinum 85% ferðamannanna er hins vegar ekki stýrt með sama hætti. Ljóst er að álag af sjö rútum í hverri lotu yfir daginn er lítið í samanburði við hin 85% ferðamannanna sem koma með einkabílum, rútum eða Superjeep og þurf að nota hringveginn til að komast um landið.