Í niðurstöðum vöktunar á loftgæðum fyrir árið 2023 kom fram að styrkur loftmengunar af völdum efna eins og brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnissambanda og svifriks var töluvert undir skilgreindum viðmiðunarmörkum vegna legu skemmtiferðaskipa við Skarfabakka, samkvæmt reglugerð 920/2016. Þetta var einnig staðan árið 2022. Niðurstöðurnar má finna hér, en Verkfræðistofan Vatnaskil sá um úrvinnslu og greiningu gagna.
Mælingarnar voru framkvæmdar með loftgæðastöð sem er staðsett í Laugarnesi, en hún er rekin af verkfræðistofunni Vista og tilgangur hennar er að sjá hvort veruleg loftmengun stafi af skemmtiferðaskipum við höfnina. Þá er einnig stuðst við aðra loftgæðastöð sem rekin er af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og er staðsett við Leikskólann Lund. Á loftgæðastöðvunum er stuðst við mælingar á vindstefnu, sem og hraða, til að rekja uppruna þeirra efna sem mælast. Þá var einnig stuðst við gögn um viðveru skipa við Skarfabakka. Í öllum tilvikum er styrkur köfnunarefnissambanda vel undir mörkum og sömuleiðis styrkur annarra efna.
Loftmengun getur verið af ýmsum orsökum, en köfnunarefnissambönd koma til að mynda í töluverðu magni frá dísilvélum í umferðinni. Einnig kemur svifrik að stórum hluta frá bílaumferð og virðist eiga uppruna í umferð á Sæbraut eða starfsemi á hafnarsvæðinu. Það er því ekki hægt að rekja sérstaklega til legu skipanna við höfn. Þá hefur eldvirkni á Reykjanesskaga verið stærsta uppspretta brennisteinsdíoxíðs á undanförnum árum en verulega hækkun mátti rekja til eldgossins við Litla-Hrút þann 27. júlí 2023. Rauntímamælingar er hægt að sjá á vef Umhverfisstofnunar www.loftgaedi.is