Í umfjöllun á heimsvísu um kolefnisfótspor skemmtiferðasiglinga má oft sjá gagnrýnendur handvelja ýmsar staðreyndir og sneiða framhjá mikilvægum punktum, eins og áætlun skemmtiferðaskipa um núlllosun. Cruise Iceland hefur reglulega þurft að árétta staðreyndir og á stundum leitast við að leiðrétta ýmsar mótsagnir og órökstudda gagnrýni með gögnum. Í kjölfar vel heppnaðs sumars á Íslandi í skemmtiferðaskipageiranum er því gott að draga saman helstu punktana sem reglulega koma til tals innan okkar raða.
Kolefnisspor skemmtiferðaskipa: Andstæðingar halda því stundum fram að skemmtiferðaskip hafi gríðarlegt kolefnisspor og að það sé í stöðugri aukningu. Sumir vilja meira að segja meina að útblástur hafi aukist um 20% frá árinu 2019. Það er mikilvægt að skoða hvort þessar tölur séu rétt raktar og hvort þær taka mið af öllum aðgerðum sem hafa verið í framkvæmd til að minnka kolefnislosun. Þrátt fyrir að kolefnisfótspor skemmtiferðaskipa hafi eðli málsins samkvæmt aukist með vexti geirans, þá er líka mikil framþróun í átt að sjálfbærni. Mörg skipafélög eru að vinna að því að minnka losun og nýjar tæknilausnir eins og lífeldsneyti og raforka eru í stöðugri þróun og geirinn er sá eini innan ferðaþjónustu sem hefur náð árangri í loftslagsmálum þrátt fyrir auknar vinsældir.
Áætlanir um núlllosun: Stundum er talað um að áætlanir skemmtiferðaskipaútgerða um núlllosun séu óraunhæfar eða aðeins til að sýnast. Markmiðin um núlllosun eru vissulega háleit og krefjast mikils tíma og fjárfestinga, en þarna eru fleiri þættir sem þarf að hafa í huga. Til að mynda eru mörg fyrirtæki sem vinna að sameiginlegum markmiðum með raunverlegum úrræðum eins og fjárfestingum í orkusparandi tækni og sjálfbærum orkugjöfum eins og lífeldsneyti. Fjöldi skemmtiferðaskipa sem getur nýtt landtengingar er mikill og getur t.d. ýtt undir að hafnir taki upp landtengingar og þannig stuðlað að minni losun fyrir aðra skipageira.
Munu skemmtiferðaskip verða að sjávarrisum? Ein af sögusögnum um skemmtiferðaskip er að stærð þeirra muni aukast verulega, sem muni leiða af sér margföldun farþegafjölda. Því fer fjarri. Þrátt fyrir að einhver stærri skip séu í þróun er raunveruleg eftirspurn eftir slíkum skipum verulega takmörkuð og því fer fjarri að skipin séu eingöngu að stækka. Margir lúxusfarþegar kjósa minni skip fyrir meiri lúxus, betri þjónustu og betra aðgengi, þannig að ólíklegt er að stórskip verði ríkjandi í framtíðinni. Þá telur heildarfloti allra skemmtiferðaskipa 445 skip og þar af eru minni og meðalstór skip 60%. Stór skip, sem taka fleiri en 4000 farþega, eru einungis 9% af flotanum. Skemmtiferða- og leiðangurskip eru auk þess einungis 1% af heildarskipaflota heims.
Landtenging í höfnum: Skortur á landrafmagni í höfnum gæti vissulega hindrað framtíðaráform um sjálfbærni skemmtiferðaskipa, en nauðsynlegt er að horfa á þróunina sem á sér stað. Margar hafnir eru sífellt að bæta við sig innviðum til að hafa möguleika á því að tengja skemmtiferðaskip við rafmagn þegar þau eru í hafnarlegu. Til dæmis byrjuðu Hafnarfjörður og Faxaflóahafnir að bjóða upp á landtengingu og fleiri hafnir munu fylgja fast á eftir á Íslandi enda krafa um slíkt fyrir svokallaðar TEN-T hafnir (e. Trans-European Transport Network).
Eru grænar ferðir raunverulega í boði? Því hefur verið haldið á loftið að fjárfestingar í umhverfisvænum lausnum séu takmarkaðar og að grænar ferðir séu ekki raunverulega í boði. Raunveruleikinn er sá að margar útgerðir eru í dag að fjárfesta í nýrri tækni til að bæta umhverfisáhrif skemmtiferðaskipa eins og með betri orkugjöfum og endurvinnslukerfum. Sumar eru einnig að þróa sjálfbærari aðferðir til að draga úr kolefnislosun, sem sýnir að geirinn er að taka stór skref í átt að sjálfbærni. Útgerðir undir hatti CLIA hafa náð eftirfarandi árangri:
- Dregið úr hlutfalli svartolíu (HFO) í notkun flotans úr 74% árið 2019 í 54% í 2023. Svartolía er ennfremur bönnuð í landhelgi Íslands.
- Losun CO2 hefur dregist saman á hvert skip síðan 2018 á skipum í Evrópu um 16%.
- 19 skip í flota CLIA meðlima nota jarðgas til að knýja sig áfram, sem lið í orkuskiptum.
- 267 skemmtiferðaskip framleiða ferksvatn um borð.
- 7 skip eru í smíðum sem geta gengið fyrir eldsneyti sem losar mjög lítið CO2 eða jafnvel ekkert CO2 og ganga þau skip fyrir grænu methanoli eða vetni.
- Á næstu fimm árum verða 15% nýrra skipa með rafhlöður og möguleika á tvinntækni.
- 225 skip eru með fullkominn hreinsibúnað fyrir notað vatn.
- 71 skip eru útbúin hvarfatækni sem dregur úr losun níturoxíðs – NOx.
- 4 skip notast við endurnýtanlega orkugjafa – lífeldsneyti.
- 61% skipanna geta tengst landtengingum rafmagns.
Eins og gefur að skilja eru einhverjir á móti siglingum skemmtiferðaskipa, á móti ferðaþjónustu almennt og efast um allar aðgerðir og framþróun sem á sér stað í geiranum. Sannleikurinn er hins vegar sá að útgerðir keppast við að þróa sjálfbærari lausnir í samstarfi við hafnir, samfélög og aðildarfélög, eins og sjá má á fréttum og skýrslum sem settar hafa verið fram undanfarin misseri. Það gera sér allir grein fyrir ávinningnum af sjálfbærari rekstri í skemmtiferðasiglingum og því verður vinnu við það verkefni ekki hætt fyrr en markmiðið næst, sem er algjör núlllosun fyrir árið 2050.
Lestu meira hér: https://cruising.org/en-gb/environmental-sustainability