Cruise Iceland þakkar Múlaþingi fyrir stuðning þeirra í hagsmunagæslu skemmtiferðaskipa og leggur áherslu á áframhaldandi samstarf í málefnum er varða innviðagjald og framtíðarskipulag skipaferða.

Mikil og þung umræða hefur átt sér stað um nýtt innviðagjald  á skemmtiferðaskip en ljóst er að gjaldið leiðir til fækkunar skemmtiferðaskipa. Cruise Iceland og CLIA (Cruise Lines International Association) fundaði með Hönnu Katrínu Friðriksson Atvinnuvegaráðherra fyrir skömmu varðandi þrepa-innleiðingu gjaldsins, en því var skellt á með nokkurra vikna fyrirvara og tók gildi 1.janúar 2025. Um er að ræða 2500 ISK á hvern farþega á hverjum sólahring innan landhelgi Íslands. Fyrir hjón í siglingu um Ísland er þetta auka 40.000 krónur sem leggjast ofan á dæmigerða ferð, sem venjulega er skipulögð og greidd tveimur árum fyrir ferðina. Skipafélög geta ekki lagt slíkan kostnað á viðskiptavini með engum fyrirvara og leita því leiða til að finna þessa fjármuni í rekstrinum. Fyrir stór skip með marga farþega er þetta gífurlegt högg. „Ísland er nú orðið óstöðugt land, og við höfum lagt framtíðarplön á ís eins og er“ segir fulltrúa skipafélaganna. „Frá 2022 hafa ný gjöld sprottið upp og ávallt hafa þau verið innleidd með engum fyrirvara“ er haft eftir sama fulltrúa. Fyrisjáanleiki er grundvallaratriði í rekstri og skipulagningu fyrirtækja almennt en enn þá frekar í rekstri skemmtiferðaskipa og því er mjög miður að þessum mikilvæga hluta ferðaþjónustunnar sé stefnt í voða með vinnubrögðum fyrri ríkisstjórnar og starfsstjórnar. 

Jákvætt viðhorf 
Mikil vakning hefur átt sér stað í umræðunni um skemmtiferðaskip, þar sem áhugi hefur aukist með auknum skilningi á geiranum. Viðhorf til skipanna hefur á skömmum tíma breyst mjög til hins betra enda varð afnám tollfrelsis og álagning innviðagjaldsins hvati líflegrar umræðu, sérstaklega á landsbyggðinni, þar sem fjöldi lítilla fyrirtækja á afkomu sína undir gestum skemmtiferðaskipanna. Þá hefur betri stjórn á hámarks fjölda gesta haft jákvæð áhrif á sama tíma og fyrirtæki hafa lært hvernig hægt er að þjónusta þessa mikilvægu viðskiptavini betur.

Aukin umsvif og hagnaður fyrir hafnir og samfélag
Seyðisfjarðarhöfn vinnur á nú að því að bjóða landstraum fyrir Norrænu, auk þess sem stefnt er að því að skemmtiferðaskip geti einnig tengst því kerfi. Slíkt myndi draga verulega úr loftmengun í höfninni og auka vistvæni skipanna og er mjög ánægjulegt að sjá að enn séu slík áform á teikniborðinu þótt forsendur fjármögnunar þeirra sé ef til vill verri núna en áður með tilkomu innviðagjaldsins.

Djúpivogur sem dæmi um jákvæð áhrif skemmtiferðaskipa
Fundur var haldinn með hagaðilum á Austurlandi þar sem ljósi var varpað á jákvæð efnahagsleg áhrif skemmtiferðaskipa, sérstaklega á Djúpavogi, en allar hafnir í Múlaþingi hafa notið uppgangs síðustu misseri og heilt yfir eiga hafnir Múlaþings mikið undir varðandi móttöku skemmtiferðaskipa á svæðinu. Skemmtiferðaskip hafa reynst mikilvægur liður í þáttum eins og uppbyggingu salernisaðstæðna, göngustíga, kaffihúsa og verslana. Fyrir vikið hafa 78 milljónir króna runnið í hafnarsjóð Djúpavogs, sem hefur leitt til bættrar hafnaraðstöðu fyrir sjómenn og atvinnustarfsemi svæðisins. Gyða Guðmundsdóttir, yfirmaður samfélagstengsla hjá AECO – Samtökum leiðangurskipa á Norðurslóðum, var með erindi á fundinum. „Það er greinilegur áhugi á því að taka á móti skipum og heimafólk er ánægt með þau tækifæri sem þeim fylgja. Hér er mikill stuðningur og hvatti fundurinn til að lagst yrði í betri rannsóknir á efnahagslegum áhrifum skipanna, sem er frábært framtak“. 

Tekjur af skemmtiferðaskipum á Seyðisfirði voru árið 2024 kr. 174.880.811. Áhrif af komum skipanna höfðu mikil áhrif á t.d. Skálanes sem er þjónustuaðili í miklum vexti og búinn að fjárfesta í rútum og vinnuaðstöðu, fjölga starfsfólki og taka yfir stóran hluta þjónustu við skipinn. Þá er  Baugur Bjólfs spennandi verkefni í vinnslu en það er framkvæmd upp á 156 milljónir á Seyðisfirði, styrkt er af Framkvæmdasjóði, og stefnt á að ljúka í ár. Göngustígur upp að Gufufossi á Seyðisfirði verður einnig kláraður í sumar. Ljóst er að tekjur og innviðauppbygging haldast í hendur.

Borgarfjörður tekur enn fremur á móti 20 AECO skipum og þjónustuaðilar eru mjög ánægðir með þróunina þótt skyndilega hafi útlitið versnað vegna innviðagjaldsins. Fjordbikes og Blábjörg eru að selja þjónustu og fleiri fyrirtæki að koma sterk inn. Það er mjög mikill kraftur í svæðinu.

Aðalheiður Borgþórsdóttir, Atvinnu- og menningarmálastjóri Múlaþings, stóð fyrir skipulagningu fundanna og gladdist yfir þeim mikla krafti sem Austfirðingar sýndu með því að fjölmenna á fundinn. „Fyrir okkur hjá Múlaþingi er afar mikilvægt að eiga í góðu og virku samtali við íbúa, því ferðaþjónustan á jú að vera í sátt við samfélagið og skapa ábata“. 

Cruise Iceland mun halda áfram að vinna að framtíðarskipulagi skemmtiferðaskipa í samráði við hagaðila og sveitarstjórn Múlaþings.